Innlent

„Djöfull ertu hommalegur maður”

Stefán Árni Pálsson skrifar
Arnar Már Eyfells átti ekki góðann dag um helgina.
Arnar Már Eyfells átti ekki góðann dag um helgina. myndir/fésbókarsíða Arnars.
Arnar Már Eyfells varð fyrir miklu aðkasti þegar hann ákvað að klæðast litríkum buxum og skóm einn daginn um helgina. 

Arnar segir að fordómar hafi greinilega kraumað inni í fólki þegar það sá hann labba um í buxunum.

„Mér finnst í raun mjög mikilvægt að vekja athygli á þessu,“ sagði Arnar í samtali við Vísi.

„Ég ákvað að fara aðeins út fyrir normið í dag og prufa eitthvað nýtt - í klæðnaði. Þannig er mál með vexti að ég var að fara hitta félaga mína niðri í bæ og ákvað að henda mér í buxurnar sem sjást á myndinni hér fyrir neðan. Þær eru kannski örlítið litríkar og skórnir vissulega líka, en persónulega fannst mér ekkert athugunarvert við þetta,“ skrifar Arnar í pistli á Fésbókarsíðu sinni.

Arnar segir að það eigi ekki að skipta máli hvort hann sé karlmaður eða kona, það sé hans val að ganga um í svona buxum og eigi hann því ekki að líða fyrir það.

„Þetta var í rauninni hálfgerð tilraun til þess að athuga hvernig fólk myndi bregðast við mér í þessum fötum í samanburði við það sem ég klæddist í gær.Ég var að hjóla í átt að Glæsibæ þegar ég heyri allt í einu hrópað í áttina að mér: “Hah, GAY!” Ég brást ekkert sérlega illa við þessu, enda bara (sirka) tólf ára krakkar - en velti því samt fyrir mér af hverju þeir voru að kalla þetta á eftir mér. Ég áttaði mig samt fyllilega á því að þeir voru að kalla svona á eftir mér vegna buxnanna sem ég var í.“

Því næst var Arnar stopp á ljósum á Suðurlandsbrautinni. Þar voru þrír strákar saman í bíl og kölluðu þeir að Arnari;„Djöfull ertu hommalegur maður!”

„Þá vaknaði spurningin aftur: Af hverju héldu þessir strákar að ég væri samkynhneigður, bara vegna þess að ég var í blómabuxum? Erum við í alvörunni ekki komin lengra en þetta? Ég þekki helling af hommum og þeir klæðast ekkert frekar blómabuxum frekar en hver annar.. þessi stereotýpíska ímynd er reyst á svo mikilli fornaldarhugsun að ég ældi næstum því yfir mig.“

Arnar segir að þarna hafi aðkastinu ekki verið lokið.

„Þegar ég var kominn niður í bæ fer ég af hjólinu, læsi því og rölti svo niður að Kolaportinu. Á leiðinni þangað voru, ekki bara einn eða tveir, heldur örugglega vel yfir helmingurinn af fólki sem ég gekk fram hjá að benda á mig og stara á mig.“

Arnar segir að svona hafi dagurinn verið í hnotskurn.

„Fólk starði bara vegna þess að þetta var ekki normið. Talaði sín á milli um samkynhneigða, kallaði á eftir mér og starði. Já, ágætu Íslendingar, við þurftum svo ótrúlega á þessari vitundarvakningu Pollapönks að halda.“

Arnar kemur inn á það í pistli sínum að þjóðin verði að losa sig við þröngsýni og taka einstaklingnum eins og hann er, sama af hvaða kyni eða kynþætti hann/hún sé.

„Klæðaburður skiptir ekki máli. Ég er reyndar ekki samkynhneigður, en vegna þess að ég ákvað að klæðast buxum með blómamynstri á í einn dag, þá gáfu sér það allir eins og það væri eitthvað slæmt og voru ekkert að spara mér kveðjurnar. Ef samkynhneigt fólk þarf í alvörunni að sæta þessu ógeðslega viðmóti einhvern tímann, bara vegna þess að þeir eru ekki gagnkynhneigðir - þá finn ég innilega til með þeim, vegna þess að þetta á ekki að skipta máli.“

Lífið er of stutt

Fyrir skammsýni

-

Burtu með fordóma

Og annan eins ósóma

Þetta er engin algebra

Öll erum við eins.

„Elskum náungan og reynum að standa öll saman, svona í alvörunni,“ skrifar Arnar að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×