Innlent

Fámenni í Leifstöð á verkfallsdegi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr Leifstöð í morgun.
Úr Leifstöð í morgun. Vísir/Gísli Berg
Heldur fámennt er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í dag en nú standa yfir verkfallsaðgerðir flugmanna Icelandair.

„Með því að tilkynna þetta strax í gærmorgun tókst að afstýra annars fyrirsjáanlegu öngþveiti bæði hér og flugvöllum erlendis,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair.

Fyrsta vinnustöðvun flugmanna hófst klukkan sex í morgun og mun standa yfir til klukkan sex í kvöld. Vegna aðgerðanna ákváðu forsvarsmenn Icelandair að fresta 26 flugum sem fyrirhuguð voru á því tímabili í dag.

„Þetta hefur gengið nokkuð vel á Keflavíkurflugvelli í morgun. Auðvitað verið örtröð í þjónustuverinu og söluskrifstofunni á Keflavíkurflugvelli en það var ekkert hægt að komast hjá því,“ segir Guðjón.

Langstærstur hluti þeirra 4500 ferðamanna sem áttu bókað í fyrrnefnd flug eru erlendir ferðamenn. Einhverjir þeirra voru ómeðvitaðir um verkfallsaðgerðir flugmanna og voru eitt stórt spurningamerki þegar þeir mættu í Leifstöð í morgun.

„Heilt yfir tókst að greiða úr þessu betur en á horfðist. Það hefur gengið þokkalega að leysa úr málum farþeganna,“ segir Guðjón.

Flugmenn mæta aftur til starfa klukkan sex í kvöld og reiknar Guðjón með því að flug geti hafist aftur um hálf átta leytið. Í kvöld eru á áætlun flug til Bandaríkjanna, Kanada auk Kaupmannahafnar og Óslóar.

Guðjón reiknar með því að seinkanir verði framan af degi á morgun en svo komist allt í eðlilegt horf.

„Við bindum vonir við það,“ segir Guðjón sem minnir þó á að yfirvinnubann geti haft þau áhrif að aflýsa þurfi flugi með stuttum fyrirvara.

„Við hvetjum fólk til að fylgjast vel með,“ segir Guðjón og minnir á vef Icelandair, vef Keflavíkurflugvallar auk umfjöllunar fjölmiðla.


Tengdar fréttir

Íslenskir Púlarar láta verkfall ekki stoppa sig

„Þetta eru flottir leikmenn sem spila skemmtilega knattspyrnu, en leggja ekki rútunni eins og Mourinho og Chelsea gerðu bæði í ensku deildinni og í Meistaradeildinni," segir ritari Liverpoolklúbbsins á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×