Erlent

Stofnfrumurannsóknir voru falsaðar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Haruko Obokata kynnti niðurstöður sínar í lok janúar.
Haruko Obokata kynnti niðurstöður sínar í lok janúar. Vísir/AP
Rannsóknarnefnd í Japan fullyrðir að stofnfrumurannsóknir, sem birtar voru í janúar síðastliðnum í vísindatímaritinu Nature, séu byggðar á fölsuðum gögnum.

Aðalhöfundur rannsóknarinnar, Haruko Obokata, segir samt ekkert hæft í þessum ásökunum og ætlar að fá niðurstöðu nefndarinnar hnekkt.

Rannsóknin vakti vonir um að hægt yrði að rækta vef sem nota mætti til að lækna ýmis konar sjúkdóma, þar á meðal Parkinsonsveiki og sykursýki. Þetta ætti að vera hægt að gera með einföldum hætti í rannsóknarstofu.

Riken rannsóknarstofan í þróunarlíffræði, sem er til húsa í borginni Kobe í Japan, lét nefnd vísindamanna fara yfir niðurstöður rannsóknarinnar. Nefndin fullyrðir að átt hafi verið við ljósmyndir af DNA-bútum sem notaðar voru í rannsókninni.

„Rannsóknarnefndin hefur komist að þeirri niðurstöðu að frú Obokata beri ábyrgð á því að hafa hagrætt gögnum og þar með vanrækslu í starfi,” hefur AP fréttastofan eftir Shunsuke Ishii, formanni rannsóknarnefndarinnar.

„Ég get ekki samþykkt þessa niðurstöðu, ég hyggst áfrýja til Riken á næstu dögum,” segir Obokata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×