Erlent

Snjallsímar Obama, Merkel og hinna þjóðarleiðtoganna

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Þjóðarleiðtogarnir nota mismunandi síma.
Þjóðarleiðtogarnir nota mismunandi síma. Vísir/AP/AFP/Getty
Þjóðarleiðtogar stærstu ríkja heims nota mismunandi síma. Sumir þeirra eru aðdáendur Apple, aðrir eiga gamla Blackberry síma og svo er einn frá Rússlandi sem segist ekki eiga farsíma og notar ekki netið.

Hér að neðan má sjá hvernig síma leiðtogar stærstu ríkjanna í heiminum eiga:

Angela Merkel - Þýskalandi

Merkel á tvennskonar síma – annan sem hún notar í erindum sem flokksforyni Kristilegra demókrata í og annan sem kanslari Þýskalands. Hún notar Nokia Slide 6260 í erindagjörðum sem flokksforingi og Blackberry Z10 sem kanslari.

Barrack Obama - Bandaríkjunum

Obama hefur í gegnum tíðina alltaf verið aðdáandi Blackberry símanna. Hann notar enn slíkan síma, en hann hefur verið uppfærður til að tryggja betur öryggi Obama og þeirra gagna sem í símanum eru. Seint á síðasta ári sagði hann hópi af ungu fólki að hann mætti ekki eiga iPhone – af öryggisástæðum.

Nawaz Sjaríf - Pakistan

Sjaríf á gamlan Blackberry Bold farsíma. Hann hefur þó oft sést nota nýja iPhone og Samsung síma. Þeir eru í eigu einhverra úr fylgdarliði Sjarífs. Hann sjálfur rígheldur í sinn gamla Blackberry og eru örfáir með símanúmerið hans.

Vladimir Pútín - Rússlandi

Pútín segist ekki eiga farsíma. Hann segist hafa átt mikinn fjölda farsíma, en hafi ekki getað notað þá vegna tímaskorts. Hann segist einnig vera hlyntari annarskonar samskiptum. Pútín hefur einnig sagst ekki nota netið – hann er sagður reiða sig á upplýsingar úr skýrslum frá leyniþjónustu Rússlands.

Francois Hollande - Frakklandi

Hollande er mikill iPhone-maður. Hann á iPhone 5 og notar hann mikið. Eftir að Edward Snowden upplýsti um njósnir bandarísku leyniþjónustunnar í Frakklandi hafa yfirvöld þar í landi verið afar varkár þegar kemur að símanotkun. Forveri Hollande, Nicolas Sarcozy, var látinn hafa Teorem-síma, sem þykir einstaklega öruggur. En Sarkozy hafði ekki þolinmæði að nota símann – það tók hálfamínútu að slá inn símanúmer.

Kim Jong-un - Norður-Kóreu

Talið er að Kim Jong-un noti síma frá HTC. Ekki er nákvæmlega vitað hvernig síma hann á nákvæmlega. Íbúum Norður-Kóreu er ekki leyft að fara á netið í farsímum sínum – eingöngu senda sms og hringja innanlands. Erlendum ríkisborgurum í landi er eingöngu leyft að hringja sín á milli – ekki í neinn frá Norður-Kóreu.

Matteo Renzi - Ítalíu

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, notar eingöngu græjur frá Apple. Hann skrifaði grein til minngar um Steve Jobs og kallaði hann „Leonardo Da Vinci okkar tíma“. Renzi hefur látið sérhanna hlífar utan um iPhone-síma sinn með pólitískum slagorðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×