Innlent

Máli Óðins Freys enn frestað vegna fjarveru

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óðni er gert að mæta aftur í Héraðsdóm þann 2. maí.
Óðni er gert að mæta aftur í Héraðsdóm þann 2. maí. visir/stefán
Fyrirtaka í máli hins opinbera gegn Óðni Frey Valgeirssyni átti að fara fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Hann er ákærður fyrir frelsissviptingu, líkamsárás og hótanir, með því að hafa, sunnudaginn 11. mars 2012, veist með ofbeldi og hótunum að konu á þrítugsaldri á þáverandi heimili hans.

Ákærði mætti ekki fyrir dóm og var því málinu aftur frestað, nú til 2. maí. Þann 10. mars síðastliðin var fyrirhuguð fyrirtaka í málinu en Óðinn mætti þá ekki í dómssal. Þá var málinu frestað til 20. mars. Málinu var því næst aftur frestað til dagsins í dag.

Fram kom í réttarsalnum að Óðinn hefði undanfarið verið í meðferð á meðferðarheimilinu Krýsuvík. Lögmaður hans staðfesti í dag að hann hefði úrskrifað sjálfan sig og ekkert hefði spurst til hans síðan.

Í ákærunni er Óðni Frey gefið að sök að hafa meinað konunni útgöngu úr læstu herbergi í tvær klukkustundir. Óðinn hafi hrint konunni ítrekað, rifið í og dregið hana á hárinu. Hann er einnig ákærður fyrir að hafa slegið konuna með flötum lófa og sparkaði einu sinni í hægra hné hennar.

Óðinn á einnig að hafa hótað konunni lífláti ef hann fengi ekki að hafa kynmök við hana. Þá hafi hann haldið á opnum skærum sem hann ógnaði henni með að því er segir í ákærunni.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. Konan gerir kröfu um að Óðni verði gert að greiða henni miskabætur upp á þrjár milljónir ásamt vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×