Innlent

Fjármálaráðherra mælir fyrir frumvarpi um skuldaniðurfellingu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/valgarður
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, mælir nú á Alþingi fyrir frumvarpi ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu höfuðstóls verðtryggðra húsnæðislána. Búist er við að umræður standi fram á kvöld.

Lækkun höfuðstóls húsnæðislána er ein viðamesta aðgerð skuldaniðurfærslanna. Um tuttugu milljarðar króna eru eyrnamerktir á fjárlögum í það verkefni á þessu ári og áætlað er að upphæðin verði svipuð næstu þrjú ár þar á eftir, eða um 80 milljarðar króna.

Hámark á niðurfærslu skulda verður um fjórar milljónir króna á heimili, samkvæmt tillögum sem kynntar hafa verið.

Grundvallarforsenda þess að lántaki geti átt rétt til leiðréttingar er sú að viðkomandi lán hafi orðið fyrir forsendufresti, að hluta til eða öllu leyti.  Verðtryggð húsnæðislán vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sem mynda stofn vaxtabóta og voru til staðar á tímabilinu 1. danúar 2008 – 31. desember 2009 veitir rétt til niðurfærslu.

Ef allt gengur að óskum verður opnað fyrir umsóknir um leiðréttingu á höfuðstól 15. maí og verður opið fyrir umsóknir í þrjá og hálfan mánuð eða til 1. september. Það kemur í hlut ríkisskattstjóra að halda utan um umsóknir en embættið mun opna sérstaka vefgátt þar sem fólk getur sótt um með rafrænum hætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×