Erlent

Rúm milljón manna flýr heimili sín í Suður-Súdan

vísir/afp
Rúm milljón manna hafa þurft að flýja heimili sín í Suður-Súdan vegna blóðugra átaka stríðandi fylkinga í landinu. Sameinuðu Þjóðirnar óttast að ástandið í landinu muni versna verulega á næstu mánuðum.

Það sló í brýnu milli stjórnarhersins og fylgismanna fyrrverandi varaforseta í desember síðastliðnum. Kveikjan að átökunum er gömul deila mismunandi þjóðarbrota og yfirráð yfir Suður-Súdan. Á þessum stutta tíma hafa vel yfir átta hundruð þúsund manns hrakist á vergang innan landamæranna en um tvö hundruð og fimmtíu þúsund hafa beinlínis flúið til nágrannaríkja.

Sameinuðu þjóðirnar kalla eftir samstilltu átaki alþjóðasamfélagsins til að stemma stigu við áframhaldandi átökum í landinu og benda á að tæplega fimm milljónir manna þurfi á mannúðaraðstoð, matvælum og nauðþurftum að halda. Þar af eru 3,7 milljónir í bráðri þörf fyrir mataraðstoð.

Það verður þó hægara sagt en gert að aðstoða íbúa Suður-Súdan, enda er landið afar afskekkt og strjálbýlt.

Fregnir hafa borist af hrottalegum fjöldamorðum og óttast er að þúsundir hafi þegar látist í átökunum.

Suður-Súdan varð sjálfstætt ríki árið 2011 og er nýjasta ríki heims en jafnframt eitt það fátækasta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×