Erlent

Kenndi rangan háskólakúrs í heila önn

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Nguyen til vinstri og Firmin til hægri.
Nguyen til vinstri og Firmin til hægri.
Háskólakennari við Lonestar-háskólann í Houston í Texasfylki í Bandaríkjunum kenndi rangan kúrs í heila önn. Upp komst um mistökin rétt fyrir lokapróf í kúrsinum. Shirley Nguyen átti að kenna inngang að efnafræði en kenndi í staðinn framhaldsáfanga í faginu. Sem reyndist nemendum hennar ákaflega erfiður.

Lauren Firmin, nemandi Nguyen, lækkaði heldur betur í einkunn. Áður en Firmin skráði sig í áfangann hjá Nguyen hafði hún alltaf fengið hæstu einkunn. Hún var með fjóra af fjórum mögulegum í meðaleinkunn, sem er eftirsóknarvert, sérstaklega ef nemendur hyggja á frekara nám og ætla sér í virtari skóla.

„Allt í einu fór ég að fá í kringum fjóra í skyndiprófum,“ útskýrir Firmin við bandarísku fréttastofuna KHOU í Texas. Hún bætir við: „Ég lærði eins og ég gat og reyndi allt sem ég gat.“

Rétt fyrir lokaprófið í áfanganum fóru nemendur að spyrja spurninga. Þá segir Firmin að kennari hennar hafi viðurkennt ótrúleg mistök. „Hún sagði okkur í tíma að hún hafði verið að kenna framhaldsáfanga í efnafræði alla önnina,“ rifjar Firmin upp og bætir við að þessar upplýsingar hafi sett hlutina í samhengi. Þessi slæmi árangur nemenda var í raun skiljanlegur.

Nguyen, hinn mistæki kennari, ætlaði að leysa málið með því að gefa nemendum auka einingu fyrir að hafa setið þennan erfiða kúrs og hækkaði einkunnir. En Firmin sætti sig ekki við það, hennar stórkostlega meðaleinkunn var farin í vaskinn. Hún kvartaði og kærði til skólastjórnenda.

Engin svör

Nguyen vildi ekkert segja um málið. Þrátt fyrir að vera þráspurð af fréttamanni.

Skólastjóri Lonestar-háskólans, John Powell, sagði að engin mistök hafi verið gerð. „Hún kenndi réttan kúrs,“ segir skólastjórinn.

Hann gaf lítið fyrir kvartanir nemenda og að þeir hafi sagt að Nguyen hafi viðurkennt mistök sín. „Ég var ekki þarna, þú varst ekki þarna. Ég get ekkert sagt hvað fór fram í skólastofu sem ég var ekki í“

Fréttastofa KHOU hefur birt tölvupóst sem staðfestir frásögn nemenda.

Powell segist samt ekki ætla að rannsaka málið. „Við erum með þá stefnu að fara ekki í formlegar rannsóknir á kúrsum,“ útskýrir hann en segist ætla að skoða málið nánar.

Firmin kræði málið til skólayfirvalda og vildi gera einkunn sína ógilda, svo hún gæti haldið hinni fullkomnu meðaleinkunn en hafði ekki erindi sem erfiði.

Hér að neðan má sjá sjónvarpsfrétt um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×