Erlent

Úkraínumenn draga allt herlið sitt frá Krímskaga

Vísir/AFP
Stjórnvöld í Úkraínu virðast ætla að sætta sig við innlimun Krímskaga í Rússneska sambandsríkið, að minnsta kosti tímabundið og til að forðast átök, en í morgun var tilkynnt um að allt úkraínskt herlið innan landamæra Krímskaga verði flutt til Úkraínu.

Um leið var tilkynnt um fyrirhugaðar heræfingu sem Úkraínumenn ætla að taka þátt í ásamt Bandaríkjamönnum og Bretum.

Leiðtogar Evrópusambandsins ætla að hittast á fundi í Brussel síðar í dag til þess að ræða frekari viðskiptaþvinganir gegn Rússum vegna deilunnar um Krímskaga. Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er nú staddur í Moskvu til þess að hvetja rússneska ráðamenn til þess að leysa málið eftir diplómatískum leiðum en ekki með hervaldi.

Hersveitir hliðhollar Rússum réðust í gær inn í tvær flotastöðvar Úkraínumanna á Krímskaga og tóku þar öll völd. Þeir héldu meðal annars flotaforingja föngnum, en honum hefur nú verið sleppt.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.