Erlent

Geta haldið áfram að taka fanga af lífi

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty
Fangelsismálayfirvöld í Texas hafa orðið sér út um nýjar birgðir af lyfjunum sem notuð eru til að taka fanga af lífi í ríkinu. Án nýju birgðanna hefðu efnin klárast um næstu mánaðarmót. Þetta kemur fram hjá AP fréttaveitunni.

Embættismenn í Texas hafa neitað að gefa upp hvar lyfin séu keypt og halda því fram að það megi hvergi koma fram. Nauðsynlegt sé að vernda þann sem sér þeim fyrir lyfjunum. Þá neita yfirvöld í Texas að gefa upp hvort þögnin sé hluti af kaupsamningi lyfjanna.

Það að gefa ekki upp hver seljandinn sé er í andstöðu við úrskurð ríkissaksóknara, sem segir til um að fangelsisyfirvöld verði að gefa út upplýsingar um lyf sem notuð eru til að taka fanga af lífi.

„Við gefum ekki upp hverjir sjá okkur fyrir lyfjunum vegna hótanna um líkamsmeiðingar í garð þeirra sem sáu útveguðu lyfjunum áður,“ sagði Jason Clark talsmaður fangelsisyfirvalda í Texas.

Fjölmargir lyfjaframleiðendur í Evrópu og víðar hafa hætt að selja lyfin til Texas svo þau séu ekki notuð til að taka menn af lífi. Fyrr í þessari viku hafði tveimur aftökum í Oklahoma verið frestað vegna skorts á lyfjunum.


Tengdar fréttir

Íhuga endurvakningu aftökusveita

Vegna lítilla birgða af efnum sem notað er í banvænar sprautur og spurninga um virkni þeirra, eru yfirvöld ríkja í Bandaríkjunum þar sem dauðarefsingar eru við lýði, farin að líta til fortíðar.

Aftöku raðmorðingja frestað

Bandarískur alríkisdómari frestaði í gærkvöldi aftöku á raðmorðingja í Missouri ríki. Ákvörðun dómarans kom aðeins örfáum klukkustundum áður en lífláta átti manninn, en lögfræðingar hans höfðu gert alvarlegar athugasemdir við nýja tegund eiturs sem átti að sprauta í æðar hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×