Erlent

Segir makrílveiðar Íslendinga óábyrgar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/esb
Írski Evrópuþingmaðurinn Pat „the Cop“ Gallagher hvetur framkvæmdastjórn ESB til þess að beita viðskiptaþvingunum gegn Íslandi og segir makrílveiðar þjóðarinnar óábyrgar. Icenews greinir frá.

Gallagher er einn þeirra sem hefur verið fremstur í flokki í gagnrýni um framferði Íslendinga í makríldeilunni.

Gallagher flutti ávarp sitt á Evrópuþinginu þar sem rætt var um nýtt samkomulag Evrópusambandsins, Norðmanna og Færeyinga um makrílveiðar næstu fimm árin sem Ísland er ekki aðili að.

Hann sagðist vera ósáttur við vinnubrögð Mariu Damanki, sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins. Hann taldi að hefði hún beitt refsiaðgerðum gegn Íslandi árið 2013 væri núverandi ástand öðruvísi.

Þá krefst Gallagher þess að fundin verði langtímalausn til þess að tryggja að makrílstofninn haldist. Hann sagði Ísland og Færeyjar ábyrg fyrir ofveiði kolmunna á Norðaustur-Atlantshafsslóðum og segir það ástæðu fyrir hættu á hruni stofnsins verði ekkert gert í málunum.

Hluti makrílafla Íslands fór úr einu prósenti árið 2006 upp í 23 prósent árið 2013. Á sama tíma hækkaði hluti makrílafla Færeyja úr 4,6 prósentum upp í 29,3 prósent.

Íslenskir ráðamenn hafa sagt að Íslendingar hafi ekki neitað að undirrita samninginn heldur hafi samkomulagið strandað á Norðmönnum og hafi Evrópusambandið tekið undir það.

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, hefur sagt að mestu hafi skipt áhersla Íslendinga á að halda sig við ráðgjöf Alþjóða hafrannsóknarráðsins, þ.e. að stunda sjálfbærar veiðar úr makrílstofninum á vísindalegum grunni.

Fjallað verður um makrílveiðar í Stóru málunum á Stöð 2 klukkan 19.20 í kvöld í opinni dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×