Erlent

Flamingóadráp valda óhug í Frankfurt

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Flamingó fugl í dýragarðinum í Frankfurt.
Flamingó fugl í dýragarðinum í Frankfurt. VÍSIR/AFP
Dráp á 15 flamingóum í dýragarðinum í Frankfurt er starfsfólki garðsins og lögreglunni mikil ráðgáta. Frankfurt Allgemeine Zeitung segir frá.

Hræin af fuglunum fundust á föstudags- og laugardagsmorgun og virðist sem þeir hafi verið drepnir að nóttu til. Höfuð þeirra höfðu ýmist verið skorin eða rifin af og einhverjir fuglanna voru stungnir til dauða.

Starfsfólk garðsins er í áfalli og er orðlaust yfir drápunum að sögn yfirmanns garðsins, Manfred Niekisch. Hann segir að ekki liggi ljóst fyrir hverjir voru að verki en líklegt sé að drápin hafi verið af mannavöldum. Ekki sé ólíklegt að refir eða þvottabirnir hafi jafnframt komið að verknaðinum.

Lögreglan segir ekki ljóst hvort einn eða fleiri menn hafi verið að verki.

Það þykir undarlegt hversu lítið blóð var að finna á vettvangi. Lögreglan veltir því fyrir sér hvort fuglunum hafi verið stolið lifandi úr garðinum og skilað aftur dauðum.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem flamingóar eru drepnir í garðinum. Árið 2007 fundust þrír dauðir fuglar og það mál er enn óupplýst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×