Erlent

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna heimsækir Grænland í fyrsta sinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ban Ki-moon á flugvellinum í Ilulissat við Diskó-flóa. Þar var 20 stiga frost.
Ban Ki-moon á flugvellinum í Ilulissat við Diskó-flóa. Þar var 20 stiga frost. SÞ/Mark Garten.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, er nú í opinberri heimsókn á Grænlandi. Heimsóknin telst söguleg því þetta er í fyrsta sinn sem æðsti embættismaður Sameinuðu þjóðanna kemur til þessa næsta nágrannalands Íslands. Ban Ki-moon gefst þar færi á að sjá með eigin augum afleiðingar loftlagsbreytinga í formi minnkandi jökla. 

Aðalritarinn flaug til Grænlands í fylgd forsætisráðherra Danmerkur, Helle Thorning-Schmidt. Þau lentu í Kangerlussuaq, eða Syðri-Straumfirði, og þar tók Aleqa Hammond, forsætisráðherra Grænlands, á móti gestunum. 

Þota danska ríkisins flaug með gestina til Grænlands. Aleqa Hammond bíður á flugvellinum í Kangerlussuaq eftir að þeir stigi frá borði.SÞ/Mark Garten.
Síðar var flogið með vél Air Greenland til Ilulissat við Diskó-flóa en þar er hinn frægi Ísfjörður, sem er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna. Ísfjörður þykir einstakt náttúrufyrirbæri en skriðjökullinn í fjarðarbotninum skríður fram um 20-35 metra á dag og skilar af sér 20 milljónum tonna af ís á hverju ári. 

Grænlandsferðin er liður í undirbúningi fyrir loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í september en Ban Ki-moon hyggst heimsækja nokkur svæði á jörðinni sem kljást við afleiðingar hlýnandi loftlags. Það var þó ekki beint hlýindum fyrir að fara á Grænlandi því 20 stiga frost var á Ilulissat-flugvelli þegar aðalritarinn steig frá borði. Ban Ki-moon sagði fréttamönnum að hann liti á loftlagsbreytingar sem einhverja mestu ógn sem mannkyn stæði frammi fyrir.

Ban Ki-moon í fylgd Alequ Hammond og Helle Thorning-Schmidt, sem veifar til fréttamanna. Aleqa tók á móti aðalritaranum íklædd selskinnskápu.SÞ/Mark Garden.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×