Erlent

Húðflúraði strimilinn á handlegginn

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Foreldrar Stian voru ekki sáttir við uppátækið.
Foreldrar Stian voru ekki sáttir við uppátækið. Vísir/Skjáskot
18 ára gamall norskur drengur að nafni Stian Ytterdahl húðflúraði á framhandlegg sinn kvittun frá Mcdonalds skyndibitastað. Hann sér ekki eftir neinu. Daily Mail greinir frá.

Stian sat með félögum sínum á Mcdonalds í Lørenskog í Noregi og snæddi hamborgara. Félagarnir voru ósáttir með framferði Stian í kvennamálum og ákváðu að honum skyldi refsað.

Félagarnir buðu Stian eftirfarandi afarkosti: hann fengi sér húðflúr af Barbie-dúkku á rasskinnina eða þá strimilinn sem þeir fengu er þeir borguðu fyrir hamborgarana flúraðan á handlegginn.

Að sögn Stian valdi hann það skárra af tvennu illu, og rölti með kvittunina á húðflúrsstofuna Sabelink Tattoo. Húðflúrarinn vann sína vinnu, og kvittunin var grafin í húð Stian. 

Ekki ætti að koma lesendum á óvart að foreldrar drengsins voru vægast sagt ósátt með uppátækið. Foreldrar hans lásu um húðflúrið í blaðinu, og faðir hans sendi honum tölvupóst sem var svohljóðandi: „Hvað í veröldinni hefurðu gert af þér? Heldur þú að þú getir komið heim með þetta?! Móðir þín fékk taugaáfall!"

Stian segist ekki sjá eftir neinu, og finnst skondið að hafa sérstætt flúr sem slíkt.

Húðflúrsstofan, Sabelink Tattoo, bauð honum að láta húðflúra kvittunina fyrir húðflúrinu honum að kostnaðarlausu á hinn handlegginn. Stian þáði boðið og er bókaður í næsta húðflúrstíma innan skamms.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×