Erlent

Forsætisráðherra Bretlands sendir samkynhneigðum hamingjuóskir

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Fyrstu brúðkaup samkynhneigðra í Bretlandi fóru fram í dag. Forsætisráðherra landsins sagði um sögulegan dag að væri að ræða.

Var dagurinn í dag sá fyrsti sem samkynhneigð pör máttu láta gefa sig saman í Englandi og Wales eftir að ríkisstjórnin lögleiddi hjónaband fólks af sama kyni í júlí síðastliðnum.

Borgarleg sambúð samkynhneigðra hefur verið heimiluð síðan 2005, og veitir slík sambúð sömu lagalegu réttindi og gifting. Baráttumenn segja hinsvegar að þau lög gefi til kynna að samkynhneigð sambönd séu óæðri þeim gagnkynhneigðu.

Samþykkt laganna síðasta sumar olli titringi innan íhaldsflokksins, flokks David Cameron forsætisráðherra, en margir innan þess flokks eru á móti hjónaböndum samkynhneigðra þar sem þeir telja slík hjónabönd ganga gegn trúarskoðunum sínum.

Cameron sjálfur hefur hinsvegar alltaf verið fylgjandi því að samkynhneigðir hafi sama rétt til hjónabanda og aðrir. Hann fagnaði fyrstu hjónaböndunum og sagði þau senda öflug og jákvæð skilaboð um jafnrétti á Bretlandseyjum.

Þó að fjöldi þeirra landa sem leyfa hjónabönd samkynhneigðra hafi vaxið verulega síðan Holland reið á vaðið árið 2000, eru þó enn ekki nema 17 lönd sem leyfa slík hjónabönd.

Hjónabönd samkynhneigðra verða leyfileg í Skotlandi frá og með október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×