Erlent

Þriggja mánaða fóstureyðingabann gagnstætt stjórnarskrá

Jóhannes Stefánsson skrifar
Andstæðingar fóstureyðinga segja rétt til lífs myndast við getnað og vera óháðan lífvænleika fóstursins utan móðurkviðs.
Andstæðingar fóstureyðinga segja rétt til lífs myndast við getnað og vera óháðan lífvænleika fóstursins utan móðurkviðs. Vísir/Getty
Alríkisdómari í Bandaríkjunum hefur komist að þeirri niðurstöðu að bann við flestum tegundum fóstureyðinga eftir 3 mánuði sé andstætt bandarísku stjórnarskránni.

Arkansas-ríki hafði lögfest bann við flestum tegundum fóstureyðinga að tólf vikum liðnum frá getnaði. Samkvæmt bandarískum rétti þarf bann við fóstureyðingum almennt að miðast við lífvænleika fóstursins utan móðurkviðs, sem er jafnan í kringum 22 til 24 viku meðgöngunnar.

„Ríkið hefur ekki fært sönnur á að fóstrið geti lifað utan móðurkviðs eftir tólf vikur," sagði dómarinn, Susan Webber Wright, í málinu.

Lögin sem höfðu verið lögfest í Arkansas gerðu ráð fyrir að ekki mætti eyða fóstri eftir að hægt væri að greina hjartsláttinn í því. Þangað til þau voru dæmd gagnstæð stjórnarskránni var um að ræða ströngustu löggjöfina í Bandaríkjunum gegn fóstureyðingum, fyrir utan lög Norður-Dakóta sem leggja bann við fóstureyðingum eftir sex vikna meðgöngu.

Dómarinn felldi þó ekki úr gildi þann hluta laganna sem skyldar lækni til að kanna hvort hægt sé að greina hjartslátt og gera móðurinni viðvart um hann.

„Lögin hefðu aldrei átt að vera sett, því þau eru svo bersýnilega gagnstætt stjórnarskránni,“ sagði Wright.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×