Erlent

Skurðaðgerð besta leiðin að auknum lífsgæðum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Skurðaðgerð við blöðruhálskrabbameini er skilvirkasta leiðin að auknum lífsgæðum og betra heilbrigði sem leiðir að lengra lífi samkvæmt nýrri rannsókn sænskra vísindamanna.

Skiptar skoðanir eru á hvernig meðhöndla eigi sjúkdóminn. Hægt er að meðhöndla sjúkdóminn á marga vegu, t.d með geislameðferð og skurðaðgerð en algengt er að veita enga meðferð heldur að bíða átekta.

Blöðruhálskrabbamein er algengasta krabbamein hjá íslenskum karlmönnum.

Rannsókn sænsku vísindamannanna, sem birt er í læknaritinu New England Journal of Medicine, er gerð í kjölfar rannsóknar sem framkvæmd var á Íslandi, í Svíþjóð og Finnlandi fyrir aldarfjórðungi. Tæplega 700 karlmönnum, sem greindir voru með blöðruhálskrabbamein, var skipt í tvo hópa. Annars vegar þeir sem höfðu látið fjarlægja blöðruhálskirtilinn algjörlega og hins vegar þeir sem biðu átekta og aðeins gengust undir aðgerð ef einkenna varð vart.

Í ljós kom að þeir sem gengust undir skurðaðgerð lifðu lengur og minni líkur voru á að meinið dreifði sér. Að auki voru fylgikvillar af völdum meinsins færri.

Algengt er að beðið sé átekta og að menn gangist ekki undir aðgerð vegna fylgikvilla sem hún getur haft í för með sér. Aðgerðin getur leitt til getuleysis og í vissum tilfellum þvagleka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×