Erlent

Mannréttindi brotin á leiðtoga Kúrda í Tyrklandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Kúrdar i Istanbúl héldu á lofti mynd af Öcallan þegar þeir komu saman 15. febrúar síðastliðinn í tilefni þess að fimmtán ár voru liðin frá því hann var handtekinn.
Kúrdar i Istanbúl héldu á lofti mynd af Öcallan þegar þeir komu saman 15. febrúar síðastliðinn í tilefni þess að fimmtán ár voru liðin frá því hann var handtekinn. Nordicphotos/AFP
Mannréttindadómstóll Evrópu segir tyrkneska ríkið hafa brotið mannréttindi á Abdullah Öcalan, leiðtoga sjálfstæðisbaráttu Kúrda, þegar hann var dæmdur í ævilangt fangelsi án möguleika á náðun.

Tyrkland verði nú annað hvort að gefa Öcalan möguleika á náðun eða ógilda ævidóminn. Jafnframt eigi tyrkneska ríkið að greiða Öcalan 25 þúsund evrur, eða tæplega þrjár milljónir króna, í skaðabætur.

Tyrkneskir sérsveitarmenn handtóku Öcalan í Naíróbí í Kenía árið 1999 og fluttu með leynd til Tyrklands, þar sem hann hann hefur verið í fangelsi síðan.

Öcalan er einn af stofnendum og helsti leiðtogi PKK, öflugustu sjálfstæðishreyfingar Kúrda í Tyrklandi. Samtökin voru stofnuð árið 1978 en hófu árið 1984 vopnaða baráttu fyrir réttindum Kúrda í Tyrklandi. Átökin stóðu áratugum saman og hafa kostað meira en 40 þúsund manns lífið.

Öcalan var í upphafi dæmdur til dauða, en eftir að Tyrkland afnam dauðarefsingu árið 2004 í tengslum við aðildarumsókn landsins að Evrópusambandinu var dauðadómnum breytt í ævilangt fangelsi.

Mannréttindadómstóllinn komst einnig að þeirri niðurstöðu að aðstæður í fangelsinu hafi verið óviðunandi til ársins 2009, en fram að þeim tíma var hann eini fanginn á fangeyjunni Imrali í Marmarahafinu, skammt frá Istanbúl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×