Innlent

Ekki áhugi í ESB á haltu mér, slepptu mér sambandi við Ísland

Hrund Þórsdóttir skrifar
Aðildarríki ESB hafa ekki áhuga á haltu mér, slepptu mér sambandi við Ísland og mjög erfitt verður að sannfæra þau um að taka við nýrri aðildarumsókn ef núverandi umsókn verður dregin til baka. Svo segja heimildamenn okkar hjá Evrópusambandinu í Brussel og stangast þetta á við fullyrðingar utanríkisráðherra.

Sérfræðingar segja að verði umsókn Íslands um aðild að ESB dregin til baka, sé ólíklegt að önnur umsókn verði tekin til greina í langan tíma, jafnvel áratugi. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, blés á þetta í samtali við fréttastofu í gær og sagði um getgátur að ræða: „Í gær átti ég samtal við Stefan Fule stækkunarstjóra og nokkra af kollegum mínum á Norðurlöndum  og tónninn í þeim var sá að Ísland er alltaf velkomið í Evrópusambandið,“ sagði Gunnar Bragi.

Heimildamenn okkar hjá Evrópusambandinu í Brussel eru á öðru máli. Þar er tilfinningin sögð sú að mjög erfitt yrði að sannfæra aðildarríkin um að taka umsókn frá Íslandi til greina að nýju, enda hafi þegar farið tími og fjármunir í viðræður sem útlit sé fyrir að verði slitið. Ekki sé áhugi á að endurtaka slíkan leik og því kæmi nýtt aðildarferli varla til greina fyrr en að löngum tíma liðnum. Málið snúist um ímynd Íslands í augum Evrópusambandsþjóðanna.

Peter Stano, talsmaður stækkunarstjóra ESB, vill ekki spá fyrir um hugsanlegar afleiðingar þess að draga umsóknina til baka og leggur áherslu á að framhaldið sé í höndum Íslendinga. „Við erum reiðubúin að bjóða samning sem er mjög ásættanlegur fyrir báða aðila og að okkar mati myndu bæði Íslendingar og núverandi aðildarþjóðir Evrópusambandsins hagnast á aðild Íslands,“ segir hann.

Samkvæmt skoðanakönnunum vill meirihluti íslensku þjóðarinnar klára aðildarviðræður við ESB. Í meðfylgjandi myndskeiði eru vegfarendur spurðir um álit þeirra á því að aðildarumsókn Íslands að sambandinu verði hugsanlega dregin til baka.


Tengdar fréttir

Þingsályktun um viðræðuslit við ESB á leiðinni

Formaður utanríkismálanefndar segir Alþingi hljóta að taka ákvörðun um framhald evrópumála að lokinni umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar. Stjórnarflokkarnir vilji ljúka viðræðunum.

Þingflokksfundur um viðræðuslit

Á fundi þingflokks Sjálfstæðismanna í dag verður rætt um afstöðu flokksins til Evrópusambandsumsóknarinnar og möguleg viðræðuslit við ESB.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.