Erlent

Viðræður Taívans og Kína hefjast

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Wang Yu-chi, fulltrúi Taívans, og Zhang Zhijun, fulltrúi Kína, hittust í Nanjing.
Wang Yu-chi, fulltrúi Taívans, og Zhang Zhijun, fulltrúi Kína, hittust í Nanjing. Vísir/AP
Fulltrúar Taívans og Kína hittust í dag til að ræða samskipti ríkjanna og framtíð. Þetta er í fyrsta sinn frá 1949, þegar Taívan klofnaði frá Kína, sem jafn hátt settir fulltrúar ríkjanna hittast.

Það voru þeir Wang Yu-chi, yfirmaður meginlandsráðs Taívans, og Zhang Zhijun, stjórnandi Taívansmálaskrifstofu Kína, sem komu saman í Nanjing á meginlandi Kína ásamt samstarfsfólki sínu.

Ekki er búist við neinum tímamótaniðurstöðum af þessum fundarhöldum, sem eiga að standa í tvo daga.

Taívan klofnaði frá Kína þegar þáverandi Kínastjórn flúði þangað eftir byltingu kommúnista árið 1949. Allar götur síðan hafa stjórnvöld bæði í Taívan og Kína talið sig geta gert tilkall til þess að teljast hin eina sanna stjórn Kína.

Talið er að viðræðurnar muni einkum snúast um viðskipti milli ríkjanna. Kínastjórn samþykkti fyrir hálfu ári viðskiptaþjónustusamning, sem þingið á Taívan hefur enn ekki fengist til að staðfesta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×