Erlent

Bandarísk stjórnvöld samþykktu aftur hækkun skuldaþaksins

Jóhannes Stefánsson skrifar
Bandaríska öldungadeildin samþykkti í kvöld hækkun skuldaþaksins. Það er í áttunda skipti sem það er gert í stjórnartíð Barack Obama.

55 öldungardeildarþingmenn samþykktu hækkunina á móti 43 sem vildu ekki samþykkja. Í þetta skiptið var tiltölulega lítil andspyrna við hækkunina á meðal repúblikana, en þeir gera jafnan kröfu um hagræðingu í ríkisfjármálum eða einhvern samdrátt í útgjöldum hyggist þeir samþykkja hækkun skuldaþaksins. Svo var ekki í þetta skiptið.

Hækkun skuldaþaksins mun hafa það í för með sér að ríkissjóður Bandaríkjanna getur nú haldið áfram að safna skuldum samkvæmt fyrri áætlunum, upp að 17,2 trilljónum bandaríkjadala. Það er jafnvirði um tveggja milljón milljarða íslenskra króna.

Svo virðist sem 16 daga orlof ríkisstarfsmanna bandaríska ríkisins í kjölfar deilna um hækkun skuldaþaksins á seinasta ári hafi haft þau áhrif að repúblikanar beina nú frekar sjónum sínum að heilbrigðislöggjöf Obama forseta. Þau hafa mætt mikilli andspyrnu vestanhafs en forsetinn hefur sjálfur viðurkennt ýmsa vankanta þeirra.

Það er þó ljóst að bandarísk stjórnvöld hyggjast ekki grynnka á skuldastöðu sinni í nánustu framtíð.

Í myndskeiðinu hér að ofan má sjá því lýst, á dramatískan hátt, hvernig heildarskuldir bandarísku þjóðarinnar líta út í 100 dollara seðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×