Zlatan Ibrahimovic og félagar í PSG eru svo gott sem komnir áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu eftir öruggan 4-0 sigur á Bayer Leverkusen í Þýskalandi í kvöld.
Blaise Matuidi gaf tóninn strax á þriðju mínútu en Zlatan jók svo muninn í 3-0 með tveimur mörkum undir lok fyrri hálfleiksins.
Fyrra mark Svíans ótrúlega kom úr vítaspyrnu á 39. mínútu en hitt kom þremur mínútum síðar. Það var sérlega glæsilegt en Zlatan skoraði þá með þrumufleyg rétt utan vítateigs.
Yohan Cabaye, sem kom til PSG frá Newcastle í síðasta mánuði, innsiglaði svo sigurinn með marki rétt undir lok leiksins.
Emir Spahic, leikmaður Leverkusen, fékk að líta sína aðra áminningu í leiknum á 59. mínútu en PSG var þá þegar komið í 3-0 forystu.
Liðin eiga eftir að mætast öðru sinni í rimmu þeirra í 16-liða úrslitum en sá leikur fer fram í París. Staða PSG er því ansi væn.
Zlatan fór illa með Þjóðverjana
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
