Erlent

Vara við ferðum til Egyptalands

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Flak rútunnar sem sprengd var á sunnudag.
Flak rútunnar sem sprengd var á sunnudag. VÍSIR/AFP
Utanríkisráðuneytið brýnir fyrir ferðamönnum að fylgjast vel með ferðaviðvörunum hyggi þeir á ferðalög til Egyptalands á næstunni.

Í kjölfar sprengjuárásar á ferðamannarútu um helgina og hótana öfgasamtakana Ansar Beit al-Makdís hefur forsætisráðherra Egyptalands lýst yfir að ástandið á Sínæ skaga sé nú orðin raunveruleg ógn við erlenda ferðamenn.

Íslamistasamtökin hafa gefið ferðamönnum frest fram á fimmtudag til að yfirgefa landið ellegar hljóta verra af.

Utanríkisráðuneyti Þýskalands gaf út tilkynningu á mánudag þar sem það varaði við ferðum til Egyptalands og fyrirliggjandi ferðaviðvaranir eru á mörgum svæðum í landinu.

„Ef Íslendingar eru að fara til landa þar sem er óróleiki ætti fólk að hafa varann á og fylgjast með viðvörunum erlendra ráðuneyta sem hafa sendiráð á svæðinu,“ segir Urður Gunnarsdóttir fjölmiðlafulltrúi ráðuneytisins í samtali við Vísi og bætir við að þetta eigi til að mynda við í Úkraínu og Bangkok.

Ekki er vitað til þess að margir Íslendingar séu í Egyptalandi þessa stundina og íslenskar ferðaskrifstofur stefna ekki á ferðir þangað á næstunni.

Ferðaviðvaranir má nálgast á heimasíðu utanríkisráðuneytsins.


Tengdar fréttir

Ferðamönnum í Egyptalandi hótað

Forsætisráðherra Egyptalands segir að íslamistar á Sínæ skaga séu nú orðin raunveruleg ógn við erlenda ferðamenn á svæðinu. Í yfirlýsingu sem öfgasamtökin Ansar Beit al-Makdís hafa sent frá sér er öllum ferðamönnum skipað að yfirgefa landið hið snarasta ella hafa verra af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×