Erlent

Vopnahlé í Suður-Súdan

Bjarki Ármannsson skrifar
Íbúar Suður-Súdans flýja átökin yfir landamærin til Úganda.
Íbúar Suður-Súdans flýja átökin yfir landamærin til Úganda. MYND/AP
Ríkisstjórn Suður-Súdans, nýjasta lands heims, hefur samið um vopnahlé við uppreisnarsveitir í landinu. Frá þessu er meðal annars greint á vef breska ríkisútvarpsins. Átök hafa staðið yfir í landinu síðastliðinn mánuð með þeim afleiðingum að um hálf milljón manna hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

Samningurinn var undirritaður í Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu, en enn ríkir mikil spenna milli stríðandi fylkinganna. Sameinuðu Þjóðirnar halda því fram að um þúsund manns hafi látið lífið í átökunum, sem spruttu út frá deilum Salva Kiir forseta við Riek Machar fyrrum varaforseta, og að bæði stjórnvöld og uppreisnarmenn hafi gerst sekir um voðaverk.

Yfirvöld hafa á undanfarinni viku endurheimt þær tvær stærstu borgir sem uppreisnarmenn höfðu lagt undir sig. Um 12,500 friðargæslumenn frá Sameinuðu Þjóðunum eru nú í landinu, en friðarviðræður eiga að halda áfram í byrjun febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×