Erlent

Maríjúanasígarettur frá Marlboro reyndust uppspuni

Hundruð þúsunda manna hafa deilt frétt á netinu þess efnis að tóbaksframleiðandinn Philip Morris sé farinn að selja maríjúanablandaðar sígarettur og ætli að koma upp maríjúanaökrum í Mexíkó og Paragvæ til að anna eftirspurn.

Samkvæmt fréttinni á tóbaksframleiðandinn að hafa ráðist í framleiðslu vindlinganna í kjölfar þess að maríjúana hefur verið leyft í ákveðnum fylkjum Bandaríkjanna. Það var fréttasíðan Abril Uno sem birti fyrst fréttir af Marlboro M, eins og sígaretturnar eru kallaðar, og einhverjir fréttamiðlar hafa endurbirt hana. 

Nú hefur hið sanna hins vegar komið í ljós. Fréttin er uppspuni frá rótum og Philips Morris er ekki farinn að framleiða maríjúnasígaretturnar. Sem fyrr segir bitu ansi margir á agnið hjá þessari grínfréttastofu og það hefur reynst heldur erfitt fyrir tóbaksframleiðandann að kveða þessa sögu í kútinn. Fyrir þá sem kunna smá spænsku gefur nafn grínsíðunnar ýmislegt til kynna en Abril Uno þýðir 1. apríl.

Einhverjir svekktir netverjar hafa þó bent á að það sé kannski ekki alveg út úr myndinni að tóbaksframleiðandinn muni í raun hefja framleiðslu á Marlboro M. Í desember síðastliðnum var Bill Phelps, talsmaður Philip Morris í Bandaríkjunum, spurður hvort fyrirtækið myndi bregðast við breyttri vímuefnalöggjöf og jafnvel fikra sig inn á maríjúanamarkaðinn. "Við höfum þá stefnu að ræða ekki né ýta undir vangaveltur um framtíðarviðskipti okkar. Tóbaksframleiðendur framleiða og selja tóbaksvörur," var svar Phelps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×