Erlent

Ofbeldi landtökumanna hefur aukist

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Ísraelskir hermenn taka við landtökumanni úr höndum Palestínumanna við Kúsra.
Ísraelskir hermenn taka við landtökumanni úr höndum Palestínumanna við Kúsra. Nordicphotos/AFP
Samkvæmt tölum frá Sameinuðu þjóðunum hefur átökum ísraelskra landtökumanna við Palestínumenn fjölgað jafnt og þétt síðustu átta árin.

Ísraelskir ráðamenn hafa ítrekað fordæmt ofbeldi landtökumanna gegn Palestínumönnum, en þvert ofan í yfirlýsingar þeirra virðist þeim ekki hafa tekist að stemma stigu við þessum árásum.

Síðan 2006 hafa landtökumenn gert um 2.100 árásir á Palestínumenn, samkvæmt tölum frá OCHA, mannúðarskrifstofu Sameinuðu þjóðanna. Árið 2006 voru 115 slíkar árásir gerðar, en þeim hafði fjölgað í 399 á síðasta ári.

Átökin hafa kostað 10 Palestínumenn og 29 landtökumenn lífið síðan 2006. Meira en 1.700 Palestínumenn hafa hlotið meiðsli í átökum við landtökumenn eða ísraelska hermenn sem komið hafa á vettvang, en 324 landtökumenn og 27 hermenn hafa særst í átökum við Palestínumenn.

Stundum eru það Palestínumenn sem eiga upptökin að átökum, meðal annars með því að kasta steinum á Ísraelsmenn.

Ísraelskir landtökumenn í haldi Palestínumanna á byggingarstað við Kúsra í síðustu viku.Nordicphotos/AFP
Til átaka kom í síðustu viku skammt frá bænum Kúsra á Vesturbakkanum, þar sem landtökumenn hafa hreiðrað um sig á stað sem nefnist Esh Kodesh.

Samkvæmt frásögn AP fréttastofunnar hófust átökin eftir að ísraelskir hermenn mættu á svæðið og fjarlægðu olíuviðartré, sem landtökumennirnir höfðu gróðursett á landsvæði sem er í eigu Palestínumanna.

Síðar um daginn fór um 20 manna hópur ísraelskra landtökumanna um svæðið og eyðilagði olíuviðartré fyrir Palestínumönnum.

Til átaka kom, þar sem grjóti var kastað, og lauk þeim átökum með því að hópur Palestínumanna tók landtökumennina höndum og hélt þeim í rúmlega tvær klukkustundir, eða þangað til ísraelski herinn kom á vettvang og handtók landtökumennina.

Ísraelsku landtökumennirnir urðu fyrir barsmíðum, en ísraelskir fréttamenn segja að hópi Palestínumanna hafi tekist að verja Ísraelanna gegn frekara ofbeldi.

Síðan þetta gerðist hafa ísraelskir landtökumenn á þessum slóðum farið um með ofbeldi, eyðilagt hundruð trjáa í Kusra, drepið 18 kindur, kveikt í sex bifreiðum og kveikt í mosku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×