Erlent

Í ótímabundið fangelsi fyrir gíslatöku á þaki lögreglustöðvar

Þorgils Jónsson skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna gíslatökunnar á sínum tíma. Hér sést lögeglumaður á vakt við vegatálma utan við lögreglustöðina.
Mikill viðbúnaður var vegna gíslatökunnar á sínum tíma. Hér sést lögeglumaður á vakt við vegatálma utan við lögreglustöðina. NordicPhotos/AFP
Hálffertugur karlmaður, sem tók ungan samfanga sinn í gíslingu á þaki lögreglustöðvarinnar í Kaupmannahöfn í fyrrasumar, var í morgun dæmdur til ótímabundinnar fangelsisvistar. Politiken segir svo frá.

Slíkum úrræðum er beitt þegar viðkomandi er talinn ógn við samfélagið. Það felur í sér fangelsi í þrjú ár hið minnsta, en eftir það verður hann metinn árlega þar til rétturinn telur hann hæfan til að fá frelsi á ný.

Maðurinn, sem hefur tengsl við glæpahópinn Bandidos og hafði áður hlotið dóma vegna auðgunarbrota, var sakfelldur fyrir hótanir og frelsissviptingu, sem og árás á tvo fangaverði sem átti sér stað deginum áður. Hann ógnaði yngri fanga á útisvæði á þaki byggingarinnar með heimatilbúnu vopni sem hann hafði gert úr tveimur samanbræddum tannburstum og hélt honum föngnum í fjórar klukkustundir áður en hann gafst upp.

Eftir á sagðist maðurinn hafa sviðsett gíslatökuna til að vekja athygli á meintum slæmum aðbúnaði fanga. Hann vísaði fram yfirlýsingu frá fórnarlambinu, þar sem fram kom að það hafi verið með í ráðum, en eftir á sagði yngri maðurinn að hann hafi verið kúgaður til að undirrita það skjal. Hinn sakfelldi áfrýjaði málinu strax.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×