Erlent

"Ég hélt að rúðurnar myndu koma inn í stofu"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Margrét Hügemann segir fólkið í bænum mjög skelkað eftir gríðarlega öfluga sprengingu.
Margrét Hügemann segir fólkið í bænum mjög skelkað eftir gríðarlega öfluga sprengingu. MYND/AP/AÐSEND
„Þetta var ofboðslega kraftmikil sprenging. Ég hélt að rúðurnar myndu koma inn í stofu þar sem ég sat. Þær nötruðu og skulfu og það brakaði í öllu hérna, mér brá mjög mikið." segir Margrét Hügemann, Íslendingur sem býr í Euskirchen í Þýskalandi.

Margrét varð vitni að sprengingu sem dró einn til bana og slasaði að minnsta kosti átta aðra fyrr í dag í bænum. Maðurinn sem lést var að vinna á jarðýtu sem rakst í sprengjuna með fyrrgreindum afleiðingum. Margrét býr í um kílómeters fjarlægð frá vinnusvæðinu þar sem sprengjan sprakk.

Hún segir fólk hafa flykkst út á götu þegar það heyrði og fann fyrir sprengingunni. „Það eru margir mjög skelkaðir hérna og mjög margar rúður brotnar, sérstaklega stórar rúður. Það eru líka margar bílrúður brotnar og bílar sem voru nálægt eru sumir gjörónýtir," segir Margrét.

Vissi strax hvað hefði gerst

„Við erum búin að búa hérna í tólf ár og við höfum tvisvar þurft að yfirgefa heimilið á meðan sprengjur úr seinni heimsstyrjöldinni voru fjarlægðar í nágrenninu. Þess vegna var þetta það fyrsta sem mér datt í hug, að það hefði sprungið sprengja einhversstaðar í bænum," segir Margrét. „Það er nánast daglegt brauð hérna í þýskalandi að það finnist sprengjur úr stríðinu en sem betur fer það yfirleitt ekki svona," bætir hún við.

Margrét segist hafa heyrt að sprengjusérfræðingar telji að sprengjan sem sprakk hafi verið sprengja sem var ætlað að springa í loftinu fyrir ofan hús og rífa þökin af þeim áður en eldsprengjum var svo látið rigna inn í húsin hjá fólki. „Ég hefði ekki viljað upplifa hvernig þetta var í stríðinu á sínum tíma miðað við kraftinn og eyðilegginguna af þessari einu sprengju," segir Margrét Hügemann að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×