Erlent

Var blind í þrettán ár en endurheimti sjónina

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Skjáskot af vefsíðu Aftonbladet.
Skjáskot af vefsíðu Aftonbladet.
Ulla Sjöö, 71 árs sænsk kona, hefur endurheimt sjónina eftir að hafa verið blind í rúman áratug. Fyrir 13 árum vaknaði Ulla með mikinn höfuðverk og skömmu síðar kom í ljós að hún hafði fengið heilablóðfall. Stuttu síðar missti hún alla sjón.

Fyrir nokkrum vikum vaknaði Ulla og viti menn, hún var búin að endurheimta sjónina.

„Það fyrsta sem ég sá var kristalsljósakróna í loftinu. Ég hef búið í íbúðinni í níu ár en aldrei séð ljósakrónuna. Ég hélt mig væri að dreyma eða að ég væri hreinlega komin í himnraríki, þetta var svo ótrúlegt,“ sagði Ulla við sænska dagblaðið Aftonbladet.

Ulla lýsir síðustu þrettán árum eins og hún hafi verið föst ofan í poka. Hún hafi ímyndað sér veruleikann en ekki hugsað út í það að hún væri sjónlaus.

„Fyrstu árin hugsaði ég um þetta en síðar varð ég að sætta mig við veruleikann eins og hann var.“ Nú finnst henni spennandi að koma út fyrir hússins dyr. Hún segir það ótrúlega tilfinningu að sjá loks fólk sem hún kynntist á meðan hún var blind.

Læknar þurfa að skoða Ullu og mynda á henni höfuðið til að freista þess að fá skýringar á því hvers vegna hún endurheimtu sjónina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×