Erlent

Vilja styttu af kölska fyrir utan þinghúsið

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Teikningin umrædda sýnir myrkrahöfðingjann í geitarlíki.
Teikningin umrædda sýnir myrkrahöfðingjann í geitarlíki.
Hópur satanista í Oklahoma City í Bandaríkjunum hefur birt teikningu af rúmlega tveggja metra hárri styttu af kölska sem þeir vilja að verði reist við þinghúsið þar í borg.

Satanistarnir hafa lagt inn formlega umsókn til nefndar um úthlutun staðsetningar fyrir styttuna, en hún sýnir myrkrahöfðingjann í líki geitar með horn, vængi og langt hökuskegg. Hann situr í hásæti með brosandi börn sér við hlið.

„Minnisvarðinn var hannaður með það í huga að endurspegla lífsskoðanir satanista í borginni og víðar,“ segir talsmaður hópsins, og bætir hann því við að styttan muni einnig nýtast sem stóll þar sem fólk á öllum aldri geti setið í kjöltu skrattans og fengið þannig innblástur.

Hópurinn hefur safnað næstum helmingi þeirra 20 þúsund Bandaríkjadala sem það kostar að reisa minnisvarðann, og bíður nú svars frá nefndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×