Erlent

Handtekinn fyrir að auglýsa kynlífsþjónustu og hylma yfir HIV-smiti

Nanna Elísa Jakobsdóttir skrifar
Frá málinu var greint í fréttum Koco, fréttamiðli í Oklahoma.
Frá málinu var greint í fréttum Koco, fréttamiðli í Oklahoma. Mynd/RawStory
Maður var handtekinn í Oklahoma eftir að hafa notað auglýsingasíðuna Craigslist til þess að mæla sér mót við konur og karla og stunda með þeim kynlíf án þess að segja frá því að hann væri með HIV. Frá þessu er greint á vefmiðlinum KOCO og RawStory.

Maðurinn heitir Martin Kraham og er 36 ára gamall. Hann var handtekinn síðastliðinn fimmtudag á heimili sínu í norðvestur Oklahoma. Samkvæmt handtökuskipuninni setti hann inn 695 auglýsingar á Craigslist yfir 6 og hálfs árs langt tímabil. Í auglýsingunum kemur fram að hann vilji stunda kynlíf. Sagði hann þeim sem svöruðu auglýsingunum frá honum að hann væri laus við sjúkdóma og eiturlyfjaneyslu þrátt fyrir að samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisyfirvöldum hafi hann greinst með HIV árið 2007.

Fréttavefurinn KOCO ræddi við tvö fórnarlömb Krahams sem vildu þó ekki láta nafns síns getið. „Mér líður eins og mér hafi verið nauðgað, það er eiginlega eina leiðin til þess að útskýra það,“ sagði önnur kvennanna. „Mér líður bara eins og það hafi gjörsamlega verið brotið á mér.“

„Hvernig getur einhver verið svo nærri þér og hlegið og brosað og átt stórkostlega stund með þér þegar þeir vita að þeir komu þér í hættu um smit af HIV og gætu verið að drepa þig,“ sagði hún.

Lögregla kveðst ekki vita hversu margir gætu hafa smitast af Kraham.

Eiginkona hans vildi ekki tjá sig um málið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×