Enski boltinn

Neita að Caulker hafi lent í slagsmálum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Steven Caulker, leikmaður QPR.
Steven Caulker, leikmaður QPR. Vísir/Getty
Enska úrvalsdeildarfélagið QPR sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem forsíðufrétt götublaðsins The Sun er sögð röng.

The Sun fullyrti að slagsmál hefðu brotist út í jólafögnuði sem leikmenn QPR og Crystal Palace sóttu um helgina. Samkvæmt fréttinni mun varnarmaðurinn Steven Caulker hjá QPR hafa verið fluttur á sjúkrahús eftir að hafa fengið skurð á höfuðið.

Í yfirlýsingu QPR kemur fram að Caulker hafi vissulega fengið skurð en að það hafi ekki verið vegna slagsmála. Tony Fernandes, eigandi QPR, sagði á Twitter-síðu sinni að Caulker hafi einfaldlega runnið til og dottið á höfuðið.

„Leikmenn fengu leyfi til að fá sér máltíð saman eftir sigurinn á Burnley um helgina, þar sem liðið átti ekki leik fyrr en níu dögum síðar,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Steven Caulker tók ekki þátt í slagsmálum. Hann fékk skurð á höfuðið og var gert að því á sjúkrahúsi áður en hann var útskrifaður síðar um kvöldið.“

Harry Redknapp, stjóri QPR, sagði á dögunum að hann ætlaði ekki að leyfa leikmönnum að halda hefðbundið jólateiti en slíkt hefur oft farið úr böndunum hjá liðunum. „Við erum í fallbaráttu og verðum að sjá til þess að einbeitingin sé í góðu lagi,“ sagði hann.

„Það er ekki vandræðanna virði. Heimurinn er breyttur en í dag er alltaf einhver á svæðinu sem er með myndavél í vasanum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×