Erlent

Bandaríkjamenn felldu sex úr eigin liði fyrir slysni

Bjarki Ármannsson skrifar
John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.
John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna. Vísir/AP
Fimm bandarískir hermenn og einn afganskur hermaður létu lífið í sunnanverðu Afganistan á mánudag í loftárás á vegum bandaríska hersins. Þetta segir lögregla á svæðinu. Loftárásin hafði verið fyrirskipuð til að hjálpa mönnunum, sem lent höfðu í fyrirsát talibana.

Dauði sérsveitarmannanna fimm þykir sýna að átökunum í Afganistan, sem nú hafa staðið yfir í nærri fjórtán ár, er hvergi nærri lokið.

John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna, sagði í gær að atvikið væri til rannsóknar en gat ekki staðfest að mennirnir hafi fallið í loftárás á vegum Bandaríkjahers. Talsmenn Atlantshafsbandalagsins (NATO) vildu ekki tjá sig um atvikið.

„Við hugsum til fjölskyldna þeirra látnu og biðjum fyrir þeim,“ sagði Kirby í yfirlýsingu sinni.

Spenna hefur lengi ríkt milli yfirvalda í Afganistan og Bandaríkjahers vegna loftárása þeirra síðarnefndu í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×