Erlent

Tímósjenkó býðst til að fórna sér fyrir ESB

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Um þúsund manns tóku í fyrrakvöld þátt í mótmælum gegn ákvörðun þingsins.
Um þúsund manns tóku í fyrrakvöld þátt í mótmælum gegn ákvörðun þingsins. Mynd/EPA
Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, segist reiðubúin til að hvetja Evrópusambandið til að falla frá kröfu um að hún verði látin laus úr fangelsi, ef það megi verða til þess að Úkraínustjórn undirriti samstarfssamning við ESB á leiðtogafundi þess í næstu viku.

Tímósjenkó hefur afplánað tvö ár af sjö ára fangelsisdómi fyrir spillingu, en Mannréttindadómstóll Evrópu komst í vor að þeirri niðurstöðu að handtaka hennar hefði orkað tvímælis.

Úkraínustjórn hefur unnið að samstarfssamningi við Evrópusambandið, sem til stóð að undirrita í næstu viku, en stjórnin hætti við nú í vikunni vegna þess að hún treysti sér ekki til að uppfylla það skilyrði ESB að Tímósjenkó fái heimild til að leita sér lækninga utan Úkraínu.

Þess í stað vill stjórnin að skipuð verði sameiginleg nefnd með fulltrúum frá Úkraínu, ESB og Rússlandi, sem fái það verkefni að bæta tengslin milli ESB og landanna tveggja.

Rússnesk stjórnvöld hafa verið mjög andsnúin því að Úkraína styrki tengslin við Evrópusambandið, en langvarandi pólitískur ágreiningur hefur verið innan Úkraínu um það hvort landið eigi frekar að halla sér að Rússlandi eða Evrópu.

Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, fordæmdi í vikunni þann þrýsting, sem Rússar eru sagðir hafa beitt Úkraínustjórn í þessu máli: „Fréttir um að Rússar hafi heldur betur aukið þrýsting á Úkraínu. Ruddaleg pólitík hótana og kúgunar. Vilja undirgefni,“ skrifaði Bildt á Twitter-síðu sína.

Íbúar í austurhluta Úkraínu líta margir nánast á sig sem Rússa og vilja hafa tengslin við Rússland áfram sem nánust. Íbúar vesturhlutans líta hins vegar frekar á sig sem Úkraínumenn og vilja heldur tengjast Evrópu en Rússlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×