Erlent

Pútín fær Kiseljov til að stjórna ríkisfjölmiðlinum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Mynd/EPA
Dmitrí Kíseljov hefur verið gerður að yfirmanni Russia Today, helstu ríkisfréttastöð Rússlands. Um leið er stöðin efld og tekur við af RIA Novosti.

Kiseljov er umdeildur afturhaldsmaður, einkum þekktur fyrir hörð ummæli um samkynhneigða. Meðal annars sagði hann í sumar að líffæri úr samkynhneigðum væru ekki nothæf til ígræðslu, og þess vegna ætti að henda þeim í ruslið.

Það er Vladimír Pútín Rússlandsforseti, sem ákvað að fá Kíseljov í þetta hlutverk, en Pútín fær hér með heimild til að skipa eða reka yfirmann stöðvarinnar.

Kíseljov er vel þekktur sjónvarpsmaður og þáttastjórnandi í Rússlandi. 

Í ágúst síðastliðnum var hann spurður út í umdeild lög, sem sett voru í Rússlandi nýverið og banna „áróður” fyrir samkynhneigð, eins og það er orðað.

„Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki nóg að banna samkynhneigðum að dreifa áróðri til barna,” sagði hann við það tækifæri.

„Ég held að það eigi að banna þeiim að gefa blóð eða sæði, og ef þeir láta lífið í bílslysi, þá á að brenna hjörtu þeirra eða grafa þau í jörðu sem ónothæf til áframhaldandi lífs.”

Miklar breytingar hafa verið gerðar á Russia Today, sem er bæði sjónvarpsstöð og heldur úti öflugum fréttamiðli á netinu á ensku, spænsku og arabísku auk rússnesku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×