Erlent

Sá flóttamennina fljóta um í sjónum

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Hér sést þegar verið er að bjarga fólkinu úr sjónum.
Hér sést þegar verið er að bjarga fólkinu úr sjónum. mynd/ap
Það voru nokkrir vinir á leið í veiðiferð sem urðu fyrstir varir við flóttamennina sem voru í skipi sem hvolfdi rétt utan við eyjuna Lampedúsa í Miðjarðarhafi á fimmtudagsmorgun.

Einn af þeim sem varð þeirra varir, heyrði í fyrstu óp en vinur hans sagði honum að hafa ekki áhyggjur, þetta væru bara mávar. Stuttu síðar sáu þeir svo fólkið fljóta um í sjónum.

„Þetta var eins og atriði í bíómynd, sem þú villt ekki sjá í alvörunni,“ sagði einn vinanna. „Fólkið var uppgefið og þegar viðköstuðum björgunarbúnaði til þeirra áttu þau erfitt með að taka jafnvel tvö sundtök enn til þess að ná í búnaðinn.“

Þeir vinirnir náðu að bjarga 47 mönnum úr sjónum áður en landhelgisgæslan kom á svæðið en samtals var 155 manns bjargað.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu og á Vísi í morgun voru flóttamennirnir á leiðinni frá Erítreu, Gana og Sómalíu með skipi sem átti að flytja þá frá Líbíu til ítölsku eyjunnar Lampedúsa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×