Erlent

Vongóð enduðu í votri gröf

Þorgils Jónsson skrifar
Líkin voru lögð á hafnarbakkann í Lampedúsa í gær.
Líkin voru lögð á hafnarbakkann í Lampedúsa í gær. NordicPhotos/AFP
114 flóttamenn frá Erítreu, Gana og Sómalíu fórust eftir að skipi, sem átti að flytja þá frá Líbíu til ítölsku eyjunnar Lampedúsa, hvolfdi snemma í gærmorgun. Um 200 er enn saknað. Þeir bætast í hóp um 6.500 flóttamanna sem taldir eru hafa látist við að reyna að komast frá ströndum Norður-Afríku til Evrópu yfir Sikileyjarsund frá árinu 1994. Þar af fórust þrettán menn í síðustu viku þegar bátur þeirra strandaði síðastliðinn mánudag, rétt undan ströndum Sikileyjar.

Síðustu ár hafa tugir þúsunda flóttafólks lagt á sig erfitt ferðalag til Líbíu og Túnis frá öðrum hlutum Afríku og Mið-Austurlöndum í von um betra líf í Evrópu. Þaðan hefur það greitt stórfé fyrir far sjóleiðina yfir til Ítalíu eða Möltu.

Skipin sem notuð eru til að ferja fólkið eru oftar en ekki algjörlega vanbúin til þessarar ferðar, þrátt fyrir að Lampedúsa sé einungis 113 kílómetrum undan strönd Túnis, og engar öryggisráðstafanir eru til staðar.

Flóttamannastraumurinn var langþyngstur á meðan á róstunum í Norður-Afríku stóð í tengslum við arabíska vorið svokallaða, en hafði gengið niður allt fram á síðustu mánuði þegar flóttafólk frá Sýrlandi bættist í þennan hóp. Alls komu 8.400 flóttamenn til Ítalíu og Möltu á fyrri helmingi ársins, en það eru nær tvöfalt fleiri en á fyrri helmingi síðasta árs þegar 4.500 komust þessa leið. Á fyrri helmingi þessa árs er vitað um 40 sem létust á þessari leið, en allt árið í fyrra fórust um 500. Árið 2011 er langsamlega mannskæðasta árið í þessu tilliti en þá fórust rúmlega 1.500 manns.

Lengi hefur verið deilt á vinnulag ítalskra og maltneskra yfirvalda, sem og Evrópusambandið, fyrir að gera allt of lítið til að bregðast við þessum mikla vanda sem flóttamannastraumurinn er. Ítalía og Malta (auk Grikklands, sem tekur á móti fjölda flóttafólks sem kemur yfir landamærin við Tyrkland) hafa einnig deilt á hin ESB-ríkin að leggja ekki sitt af mörkum.

Harmleikurinn í gær vakti mikil viðbrögð um heim allan þar sem Cecilia Malmström, framkvæmdastjóri innanríkismála hjá ESB, kallaði meðal annars eftir því að aðildarríki styddu innleiðingu nýrra reglna sem eiga að auðvelda starf við að finna og bjarga bátum á þessari leið, og eins að berjast gegn glæpahópum sem misnota neyð fólks í gróðaskyni án tillits til öryggis þess.

Allt að 500 í feigðarferðinni

Skipið sem um ræðir er 20 metrar á lengd og lagði úr höfn í Misrata í Líbíu tveimur dögum áður en ósköpin dundu yfir. Talið er að á milli 450 og 500 manns hafi verið um borð, þar af 100 konur og tíu börn.

Þegar skipið tók að nálgast Lampedúsa var drepið á vélinni, eins og vanalegt þykir í svona ferðum. Jafnan eru símar eða talstöðvar meðferðis til að kalla á hjálp en ekki í þetta sinn. Einhver um borð brá á það ráð að kveikja eld í klæðisbút til að ná athygli nærliggjandi skipa en eldurinn virðist hafa breiðst út, sem varð til þess að farþegarnir flúðu allir út á sömu hlið skipsins sem valt á hliðina og fólkið féll í sjóinn.

Þeir sem komust lífs af voru langflestir karlmenn. Sárafáar konur voru meðal þeirra sem bjargað var og engin börn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×