Erlent

"Rangt að ætla að njósna um alla"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Kim Dotcom er eftirlýstur af bandarískum stjórnvöldum.
Kim Dotcom er eftirlýstur af bandarískum stjórnvöldum. Mynd/ AFP
Kim Dotcom segir yfirvöld í Bandaríkjunum og fyrirtækið Leaseweb hafa eytt persónulegum gögnum þúsenda notenda Megaupload vefsins viðvörunarlaust.

Um er að ræða petabæt [eina milljón gígabæta innsk. blm.] af gögnum á borð við ljósmyndir, öryggisafrit auk persónulegra og viðskiptalegra gagna. Gögnin voru sönnunargögn í máli bandarískra yfirvalda gegn Kim Dotcom. Dotcom er eftirlýstur í Bandaríkjunum meðal annars fyrir gríðarlegt magn höfundarréttarbrota.

Dotcom sagði í Twitter-færslu að aðgerðin væri „Stærsta tortíming gagna í sögu internetsins. Lögmenn Dotcom hafa ítrekað beint þeim tilmælum til Leaseweb, sem hýsti gögnin, um að eyða þeim ekki fyrr en málaferli á hendur Dotcom væru leidd til lykta. Dotcom hefur hagnast gríðarlega á MegaUpload vefnum sem lýtur nú rannsókn þarlendra yfirvalda.

Segist vilja dulkóða internetið

Dotcom sagði jafnframt í viðtali við RT: „Markmið mitt á næstu fimm árum er að dulkóða helming internetsins. Ég vil koma aftur á jafnvægi á milli persónunnar - einstaklingsins - og ríkisins. Eins og málin standa núna búum við í raunveruleika sem er mjög líkur þeim sem George Orwell lýsti og mér hugnast ekki þróun mála. Það er röng braut sem ríkisvaldið er á að halda að þeir geti njósnað um alla."

Þetta kemur fram á vef RT.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×