Erlent

Bætist í hóp flóttamanna á 15 sekúndna fresti

Þorgils Jónsson skrifar
Tvær milljónir manna hafa flúið átökin í Sýrlandi. 5.000 manns bætast í hópinn á degi hverjum. Þessi piltur kom yfir landamærin til Tyrklands um helgina.
Tvær milljónir manna hafa flúið átökin í Sýrlandi. 5.000 manns bætast í hópinn á degi hverjum. Þessi piltur kom yfir landamærin til Tyrklands um helgina. NordicPhotos/AFP
Fjöldi flóttamanna frá Sýrlandi komst í dag upp fyrir tvær milljónir manna. Straumurinn út út landinu hefur þyngst stöðugt síðustu tólf mánuði eftir því sem átök harðna í borgarastyrjöldinni þar í landi, en fyrir réttu ári voru flóttamenn rúm 230.000 manns. 5.000 manns flýja land á degi hverjum sem jafngildir því að flóttamaður bætist í hópinn á um fimmtán sekúndna fresti.

Antonio Guterres, yfirmaður flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, segir ástandið í Sýrlandi vera án fordæma á seinni tímum. Eina ljósið í myrkrinu sé viðbrögð nágrannaríkjanna sem hafa tekið við flóttamönnunum og bjargað þar með ótal mannslífum.

Mikið starf felst í að sinna flóttafólkinu, sem móttökuríkin valda alls ekki og því er þörf á mikilli aðstoð. Hjálparsamtök sem vinna á svæðinu hafa innan við helming þeirra fjármuna sem þyrfti til að sinna grunnörfum bágstaddra í flóttamannabúðunum. Skrifstofur UNICEF (Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna) og Rauða krossins á Íslandi standa meðal annars fyrir söfnun til að aðstoða flóttafólk frá Sýrlandi

Langflestir, eða um 97% dvelja í nágrannaríkjum Sýrlands. Um síðustu mánaðamót voru 110.000 í Egyptalandi, 168.000 í Írak, 515.000 í Jórdaníu, 716.000 í Líbanon og 460.000 í Tyrklandi. Rúmur helmingur flóttafólks eru börn, sautján ára eða yngri.

Þess utan hafa vel á fimmtu milljón manns hrakist frá heimilum sínum og eru á vergangi innan Sýrlands. Þannig eru yfir sex milljónir Sýrlendinga á flótta, sem er meira en fyrirfinnst í nokkru örðu ríki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×