Birkir Bjarnason kom ekkert við sögu þegar Sampdoria gerði 1-1 jafntefli við Lazio í ítölsku A-deildinni í fótbolta í dag. Juventus tyllti sér á toppinn með 2-0 sigri á Livorno.
Fernando Llorente og Carlos Tevez skoruðu mörk Juventus í seinni hálfleik í dag en Juventus er komið í 34 stig á toppi deildarinnar, með tveimur stigum meira en Roma sem á leik til góða á morgun.
Sampdoria var andartökum frá því að vinna mikilvægan sigur í fallbaráttunni. Roberto Soriano kom liðinu yfir á 67. mínútu og það þrátt fyrir að Nenad Krsticic leikmaður Sampdoria fengi að líta rauða spjaldið á fyrstu mínútu seinni hálfleiks.
Lazio sótti án afláts í leit að jöfnunarmarki og það kom á 94. mínútu leiksins þegar Lorik Cana tryggði Lazio stig.
Stigið dugði Sampdoria til að lyfta sér úr fallsæti en liðið er með 10 stig eins og Bologna í 17. sæti en með betri markamun.
Birkir Bjarnason sat allan leikinn á varamannabekk Sampdoria.
Úrslit dagsins á Ítalíu:
Livorno - Juventus 0-2
Sampdoria - Lazio 1-1
Sassuolo - Atalanta 2-0
Torino - Catania 4-1
Udinese - Fiorentina 1-0
Birkir lék ekkert í jafntefli Sampdoria | Juventus á toppinn
Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
