Erlent

Sjónvarpsprédikari staðfestir að flíkur á fatamörkuðum eru andsetnar

Þeir sem versla á fatamörkuðum er hollast að hafa varann á. Svo gæti verið að ein peysa eða svo sé andsetin, það er, ef marka má sjónvarpsprédikarann bandaríska Pat Robertson.

Þessi víðfrægi guðsmaður fór mikinn í sjónvarpsviðtali á kristilegu sjónvarpsstöðinni CBN á dögunum. Þar svaraði Robertson spurningum áhorfenda.

Ein fyrirspurnin vakti sérstaka athygli en hún barst frá ungri stúlku að nafni Carrie. Þar var spurt hvort að nauðsynlegt væri að blessa föt sem keypt eru á fatamörkuðum eða í verslunum Hjálpræðishersins. „Fyrir stuttu sagði mamma að það þyrfti að biðja yfir fötunum, til að bæla burt ill anda. Er þetta rétt hjá móður minni? Geta árar virkilega tekið sér bólfestu í efnislegum hlutum?"

Svar Robertson var á þessa leið:

„Jú, það er rétt. Ég er þó handviss um að það séu litlar líkur á að hver einasta flík á fatamörkuðum sé andsetin," sagði Robertson. „Móðir þín vill líklegast bara vera varkár og það er ágætt. Það getur vart verið skaðlegt að vísa árunum á brott."

Hægt er að sjá myndbrot úr viðtalinu hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×