Erlent

Tvíbentur andreykingaáróður

Jakob Bjarnar skrifar
Spurning hvernig þessi mynd orkar á þá sem eru að reyna að hætta reykingum?
Spurning hvernig þessi mynd orkar á þá sem eru að reyna að hætta reykingum?
Ný rannsókn sýnir að auglýsingar gegn reykingum geta hæglega snúist upp í andhverfu sína og vakið upp löngun í sígarettur.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar í nýjasta tölublaði Media Psycohology. Tilteknar auglýsingar gegn reykingum geta vissulega náð tilgangi sínum en sú er alls ekki alltaf raunin, segja höfundar rannsóknarinnar sem unnin var við Háskólann í Pennsylvaniu.

Lykilatriði er að skilaboðin séu nógu afgerandi til að grípa athyglina, að hamrað sé á því að sígarettur séu skaðlegar. Ef skilaboðin eru óljós vill áróðurinn breytast í andhverfu sína. Og þeir sem stýrðu rannsókninni nefna dæmi: Nýleg auglýsing þar sem sýnt var hvar reykingamaður þurfti að læra að lifa eftir barkaskurð er talin hafa náð markmiðum sínum sem og auglýsingar þar sem reykingum er líkt við það að leysa vind á almannafæri en sú auglýsing var á vegum Kanadískra yfirvalda. Þessar auglýsingar ná að vekja áhorfendur til vitundar um skaðsemi reykinga og kalla fram viðhorfsbreytingu vegna þess hversu afgerandi þær eru að mati skýrsluhöfunda.

Ef skilaboðin eru meira á reyki gera þær ekki annað en vekja löngun í sígarettur, skilaboðin fara með öðrum orðum ofan garðs og neðan. Í skýrslunni er nefnt sem dæmi að ef auglýsing er mjög fyndin, þá muna áhorfendur aðeins grínið en ekki vöruna eða fyrirtækið sem verið er að koma á framfæri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×