Erlent

Samkynhneigðir fagna úrskurði

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Úrskurðar beðið með eftirvæntingu í Washington.
Úrskurðar beðið með eftirvæntingu í Washington. Mynd/AP
Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur kveðið upp þann úrskurð að ákvæði í lögum um "vernd hjónabandsins" frá 1995 standist ekki stjórnarskrá landsins. Lögin kváðu um að einungis gagnkynhneigð hjón geti notið félagslegra réttinda á borð við skattafrádrátt, almannatryggingar og heimild til að heimsækja maka sinn á sjúkrahús.

Það var Bill Clinton Bandaríkjaforseti sem undirritaði lögin árið 1996.

Edith Windsor, samkynhneigð ekkja frá New York, kærði þetta fyrirkomulag og naut stuðnings ríkisstjórnar Baracks Obama. Hæstiréttur hefur nú tekið undir kröfur hennar og samkynhneigðir víðs vegar um Bandaríkin fagna ákaft.

Stuttu eftir þessa niðurstöðu, sem þykir marka tímamót í réttindabaráttu samkynhneigðra, barst annar úrskurður frá Hæstarétti um réttindi samkynhneigðra í Kaliforníu, þar sem íbúar samþykktu í atkvæðagreiðslu árið 2008 að banna hjónabönd samkynhneigðra í Kaliforníu. Rétturinn forðast í úrskurði sínum að taka beina afstöðu til bannsins, en opnar leið til þess að samkynhneigðir geti gengið þar í hjónabönd.

Alls hafa tólf af ríkjum Bandaríkjanna ásamt höfuðborginni Washington leitt hjónabönd samkynhneigðra í lög.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×