Erlent

Náði fyrstu myndinni af Oslóarúlfinum

Náðst hefur mynd af úlfi sem heldur til í grennd við Osló í Noregi. Úlfur þessi hefur verið eitt helsta umtalsefni borgarbúa undanfarna daga enda tegundin talin útdauð á svæðinu í 200 ár.

Raunar telja sérfræðingar að hér sé um úlfapar að ræða og byggja það á rannsóknum á þeim sporum sem fundist hafa. Það gæti því komið upp sú staða að fyrstu úlfahvolpum síðan á 19. öld verði gotið þarna í vor. Um er að ræða skóglendið í Austurmörk suðaustur af Osló.

Sá sem náði mynd af úlfinum, að nóttu til, var skotveiðimaður sem hafði komið fyrir sjálfvirkri myndavél á veiðisvæði sínu. Þegar filman var skoðuð löngu síðar kom í ljós að úlfurinn var á einum rammanum.

Borgarstjórn Óslóar hefur ákveðið að friða þessa úlfa og finnst gott að þeir séu komnir aftur á sínar gömlu slóðir. Einn af leiðtogum Miðflokksins vill hinsvegar skjóta þá á færi við fyrsta tækifæri enda um stórhættuleg rándýr að ræða.

Í nýrri skýrslu kemur fram að ríflega 50 úlfar haldi sig til í Noregi, þar af eru flestir þeirra í Heiðmörk sem liggur langt norður af Osló við landamærin að Svíþjóð.

Blaðið Verdens Gang hefur sett í gang samkeppni meðal lesenda sinna um hvaða nöfn eigi að gefa þessu úlfapari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×