Erlent

Tvær sjálfsmorðsárásir á tveimur dögum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sprengjan var svo öflug að strætisvagninn tættist í sundur.
Sprengjan var svo öflug að strætisvagninn tættist í sundur. Nordicphots/AFP.
Fjórtán létust og um þrjátíu særðust í sjálfsmorðssprengjuárás í borginni Volgorad í suðurhluta Rússlands í gær. Sprengjan sprakk í strætisvagni á háannatíma.

Enginn hefur lýst árásinni á hendur sér. Rússnesk yfirvöld segja að tengsl séu á milli árásarinnar og sjálfsmorðsárásar frá því á sunnudag. Þá sprengdi kona sig í loft upp við málmleitarhlið í anddyri aðaljárnbrautarstöðvar Volgograd, með þeim afleiðingum að sautján létust og yfir þrjátíu særðust.

Vladimir Markin, yfirmaður innan rússnesku lögreglunnar, sagði í yfirlýsingu í gær að sprengjan sem notuð var í strætisvagninum hafi verið svipuð þeirri sem sprakk á sunnudag.

„Það staðfestir að þessar tvær hryðjuverkaárásir tengjast,“ sagði hann.

Markin sagði stjórnvöld ætla að auka öryggisviðbúnað í landinu í þeirri von um að koma í veg fyrir frekari hryðjuverk.

Rúmir tveir mánuðir eru liðnir síðan kona sprengdi sig í loft upp í öðrum strætisvagni í Volgograd. Þá létust sex. Borgin, sem hét áður Stalíngrad, hefur mikið táknrænt gildi fyrir Rússa því þar sigruðu þeir Þjóðverja í Síðari heimsstyrjöldinni og snéru við gangi hennar.

Árásirnar þrjár eru taldar tengjast ummælum Doku Umarov, leiðtoga uppreisnarmanna í Téténíu, en hann hótaði fyrr á árinu að árásum fylgismanna hans yrði beint gegn óbreyttum borgurum í Rússlandi.

Rússnesk yfirvöld hafa vaxandi áhyggjur af árásum hryðjuverkamanna nú þegar um mánuður er í opnunarathöfn vetrarólympíuleikanna sem fara fram í rússnesku borginni Sachi. Þau hafa nú þegar hert öryggisviðbúnað sinn í borginni en árásir síðustu daga hafa leitt veikleika þeirra í öðrum borgum í ljós.

Alþjóðaólympíunefndin sendiaðstandendum þeirra sem létust í árásinni á sunnudag samúðarkveðjur í yfirlýsingu. Þar kom jafnframt fram að nefndin hefur fulla trú á því að Rússum takist að koma í veg fyrir að árásir hryðjuverkamanna nái til vetrarólympíuleikanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×