Erlent

Sjötíu fréttamenn létu lífið við störf sín á árinu 2013

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Einn þeirra 70 fréttamanna sem létust við störf sín á árinu var Mohamed Mohamud frá Sómalíu.
Einn þeirra 70 fréttamanna sem létust við störf sín á árinu var Mohamed Mohamud frá Sómalíu. Mynd/AP
Að minnsta kosti 70 fréttamenn létu lífið við störf sín á árinu 2013, samkvæmt samantekt samtaka sem nefnast Nefnd til verndar fréttamönnum.

Flestir þeirra létust í Sýrlandi, eða 29, en tíu létust í Írak og sex í Egyptalandi.

„Miðausturlönd eru orðin að blóðvelli fyrir fréttamenn,“ segir Robert Mahoney, aðstoðarframkvæmdastjóri samtakanna. „Þótt dauðsföllum fréttamanna hafi fækkað á sumum stöðum, þá hefur borgarastríðið í Sýrlandi og endurnýjuð átök ólíkra hópa í Írak tekið kvalafullan toll.“

Hann segir að alþjóðasamfélagið verði nú að þrýsta á leiðtoga allra ríkja og vopnaðra hópa um að virða stöðu fréttamanna og sækja til saka þá sem verða þeim að bana.

Samtökin hafa fylgst með dauðsföllum fréttamanna í starfi um heim allan frá árinu 1992.

Verið er að skoða hvort dauðsföll 25 annarra fréttamanna, sem ekki eru inni í fyrrgreindri tölu fyrir árið 2013, hafi með einhverjum hætti tengst störfum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×