Erlent

Andstæðingur Hesbollah lést í sprengjuárás

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sprengingin var öflug og nærliggjandi byggingar löskuðust.
Sprengingin var öflug og nærliggjandi byggingar löskuðust. Fréttablaðið/AP.
Sex létust og yfir sjötíu særðust í bílsprengingu í miðborg Beirút, höfuðborgar Líbanons, í gær. Sprengjunni, sem vóg um sextíu kíló, var komið fyrir í bifreið Mohammeds Chatah, fyrrverandi fjármálaráðherra Líbanons og ráðgjafa Saad Hariri, fyrrverandi forsætisráðherra landsins. Chatah og bílstjóri hans létust báðir.

Talið er að liðsmenn Hesbollah-samtakanna hafi komið sprengjunni fyrir. Chatah var harður andstæðingur samtakanna og gagnrýndi þau meðal annars á Twitter um klukkustund áður en hann lést. Þar sagði hann samtökin þrýsta á að fá aukin völd í varnarmála- og utanríkisstefnu Líbanon.

Chatah var í gær á leiðinni á fund með Hariri og meðlimum líbanskrar hreyfingar sem hefur gagnrýnt stjórnvöld í Sýrlandi opinberlega. Chatah og Hariri voru einnig andstæðingar Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, en hann nýtur stuðnings Hesbollah. Réttarhöld yfir fimm liðsmönnum samtakanna eiga að hefjast eftir þrjár vikur, en þeir eru sakaðir um að hafa drepið Rafik Hariri, föður Saads, í sprengjutilræði í Beirút árið 2005.

Chatah var súnní-múslimi líkt og Hariri. Borgarastyrjöldin í Sýrlandi hefur aukið á spennuna milli súnnía og sjía-múslima í Líbanon. Liðsmenn Hesbollah, sem eru sjíar, hafa undanfarna mánuði gengið til liðs við stjórnarher Sýrlands en súnníar í Líbanon styðja uppreisnarmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×