Erlent

Túlkur lagður inn á geðsjúkrahús

Freyr Bjarnason skrifar
Thamsanqa Jantjie "túlkar“ orð Barack Obama á minningarathöfninni.
Thamsanqa Jantjie "túlkar“ orð Barack Obama á minningarathöfninni. Mynd/AP
Táknmálstúlkurinn Thamsanqa Jantjie, sem vakti heimsathygli á minningarathöfn um Nelsons Mandela fyrir undarlega tilburði sína, hefur verið lagður inn á geðsjúkrahús. Eiginkona hans Sizime telur að Jantjie hafi fengið taugaáfall.

Enginn skildi táknmálstúlkun Jantjie á minningarathöfninni, þar sem Barack Obama, Bandaríkjaforseti, var á meðal ræðumanna.

Síðar kom í ljós að túlkurinn hafði eitt sinn verið ákærður fyrir morð og nauðgun. Sjálfur sagðist hann hafa fengið geðklofakast við athöfnina og séð engla en tók það skýrt fram að hann kynni táknmálstúlkun.

„Síðustu dagar hafa verið erfiðir. Við höfum reynt að styðja við bakið á honum því svo virðist sem hann hafi brotnað saman,“ sagði eiginkona hans við dagblaðið The Star í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Hún fór með Jantjie í skoðun á geðsjúkrahúsið á þriðjudaginn og þar var óskað eftir því að hann yrði lagður inn þegar í stað.

Í síðustu viku sagði hún að eiginmaður sinn hefði átt að fara skoðun á geðsjúkrahúsinu sama dag og minningarathöfnin fór fram en hann ákvað að fresta því.

Afríska þjóðarráðið segist hafa ráðið Jantjie nokkrum áður sem táknmálstúlk og það hafi aldrei fengið neina kvörtun yfir störfum hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×