Erlent

Leyniskyttur hafa drepið hundruð barna í Sýrlandi

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Þessi piltur í Aleppo særðist á höfði í stríðsátökum þar nýverið.
Þessi piltur í Aleppo særðist á höfði í stríðsátökum þar nýverið. Mynd/EPA
Hundruð barna hafa verið myrt af leyniskyttum í Sýrlandi eftir að borgarastríðið þar hófst fyrir nærri þremur árum. Alls hafa meira en ellefu þúsund börn látið lífið í átökunum.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá breskri stofnun, Oxford Research Group, sem hefur farið í gegnum gögn um manntjón í átökunum allt frá því í mars árið 2011 þangað til í ágúst á þessu ári.

Í skýrslunni kemur einnig fram að börn, allt niður í eins árs aldur, hafi mátt þola pyntingar.

Í mestri hættu eru drengir á aldrinum 13 til 17 ára, en stúlkur eru um þriðjungur þeirra barna sem látið hafa lífið í þessari langvinnu borgarastyrjöld.

„Það sem veldur mestum áhyggjum varðandi niðurstöðu skýrslunnar er ekki aðeins fjöldi þeirra barna sem hafa verið drepin í þessu stríði, heldur hvernig þau hafa verið drepin,“ segir Hana Salama, einn höfunda hennar. „Allir aðilar átakanna verða að taka ábyrgð á því að vernda börnin, og á endanum að finna friðsamlega lausn á þessu stríði.“



Stofnunin tekur fram að í skýrslunni sé alfarið byggt á frásögnum af dauðsföllum sem hægt hefur verið að staðfesta. Ekki sé ólíklegt að raunverulegu tölurnar séu enn hærri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×