Erlent

Verktakar vísa ábyrgð á bug

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Tala látinna hækkaði jafnt og þétt þegar leið á daginn í gær.
Tala látinna hækkaði jafnt og þétt þegar leið á daginn í gær. Mynd/EPA
Öll fyrirtækin, sem unnið hafa að byggingu og breytingum á Maxima-verslunarmiðstöðinni í Riga, þverneita að hafa brotið lög og vísa á bug allri ábyrgð á því hvernig fór.

Þak byggingarinnar hrundi að stórum hluta á fimmtudag, með þeim afleiðingum að 47 manns hið minnsta létu lífið. Björgunarfólk vann við að leita í rústum byggingarinnar í allan gærdag, og hækkaði tala látinna jafnt og þétt eftir því sem fleiri lík fundust.

Ekki er vitað hve margir gætu leynst í rústunum til viðbótar, en síðdegis í gær átti enn eftir að bera kennsl á sex hinna látnu.

Að auki slösuðust 35 og þurfti að senda 28 þeirra á sjúkrahús.

Meðal hinna látnu voru þrír slökkviliðsmenn og meðal hinna slösuðu voru tíu slökkviliðsmenn, en þeir voru komnir snemma á vettvang að leita að fólki til að bjarga þegar meira hrun varð úr þakinu.

Verslunarhúsið var reist árið 2011 og hafði fengið verðlaun fyrir góðan arkitektúr. Verið var að vinna að breytingum á þaki hússins þegar það hrundi.

Verktakar voru að leggja þar göngustíga og koma fyrir bekkjum, því ofan á þakinu átti að vera lítið útivistarsvæði.

Talið er að of mikið af efni hafi verið geymt í pokum á þakinu þar sem það hrundi. Úrkoma síðustu daga er hugsanlega einnig talin hafa átt þátt í því að þakið þoldi ekki álagið.

Um 500 fermetra svæði af þakinu gaf sig og jafnframt eyðilagðist stór hluti af veggjum byggingarinnar.

Á blaðamannafundi í gær sögðust fulltrúar verktakanna, sem reistu húsið og unnu að breytingunum, ekki hafa farið á svig við neinar reglur. Þakið hafi síðast verið skoðað á þriðjudaginn og ekkert athugavert komið í ljós, að því er fram kemur á fréttavefnum Baltic Course.

Í tilkynningu á heimasíðu Maxima, fyrirtækisins sem rak verslunina, segir hins vegar að fyrirtækið muni gera allt sem í þess valdi stendur til að aðstoða fórnarlömb þessa harmleiks. Meðal annars muni fyrirtækið greiða fyrir allan sjúkra- og meðferðarkostnað þeirra sem slösuðust, ásamt því að greiða fyrir útför þeirra sem létust og veita aðstandendum þeirra stuðning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×